Færsluflokkur: Bloggar

Áramótakveðja

 IGP3174

Þorraþræll 2010

Nú er illt í efni
enginn aur hjá mér.
Bót á enginn hér
fyrir boruna á sér.
Öll af undirgefni
örkum fjallið bratt.
Borgar landinn glatt
meiri skatt.
Bílalánið brátt,
sem byrjaði svo smátt.
Endaði himinhátt
og enginn fær afslátt.
Sækja á fólk í svefni
skuldadraugar senn.
Fylleríum fylgja enn
timburmenn.

Siglir þjóðarskútan
Skerjagarði í.
Skorið er á ný
niður, kurt og pí.
Útrásarinnar risarútan
ryðgar nú á stöð.
Engin er biðröð
í hennar tröð.
Sparnaðinn á ís
enginn núna kýs.
Skuldin ennþá rís
og hugur landans hrís.
Brátt mun mörg mínútan
missast út í tóm.
þras og þrátt sem hjóm
um þjóðardóm.


Vondu vandamálin
verða hér um stund.
Hvað skal lyfta lund
og létta okkar sund?
Sterk er þjóðarsálin
saman stöndum nú.
Hafa verðum trú
á betra bú.
Andann efla má
enginn tak oss frá
vináttuna þá
er inni má hér sjá.
Beislum illskubálin
er brenna í okkar sál.
Stöppum í okkur stál
og segjum skál.

Frumflutt á Þorrablóti Sýklafræðideildar 30.1.2010.KJ.


Í desember

Hengjum við upp hangiketið í eldhúsinu Joyful

Desember 2009 149 á hlið


Hún og hann

Hún hafði líka horft á hann lengi. Hann var orðinn gamall og feitur. Hún hafði oft reynt að losa sig við hann en hann kom alltaf aftur. Hann virtist elska að liggja fyrir fótum hennar og láta traðka á sér, sparka í sig, rífa sig upp og róta í sér. Hann var alltaf úti og þoldi vel frosthörkur og dynjandi regnskúrir. Stundum skreið hann upp í gluggana og eins og hann vildi koma inn reyndi hann að troða sér meðfram rúðunni. En dag einn fékk hún vopnið sem hún hafði beðið eftir lengi. Hún vissi að það myndi ganga frá honum, fæla hann burt, skola honum eins Karíusi og Baktusi langt út í hafsauga. Hún þekkti þetta vopn vel, hafði notað það oft í sveitinni á ýmsar óværur. Verkið sóttist seint en örugglega og áður en varði sást ekki tangur né tetur af honum. Hún vissi þó að hann var þarna enn, hann lá í leyni bak við stein og faldi sig fyrir háþrýstidælunni, gamli góði mosinn í stéttinni.

Hún og það.

Hún hafði horft á það lengi. Þegar hún sá það fyrst var það örlítið og saklaust og nærvera þess ónáðaði hana ekki hætis hót. Í önnum dagsins var það ekkert að þvælast fyrir henni, það lá bara þarna, hreyfingarlaust. En tíminn leið og það tók að stækka, á alla kanta, en ennþá lá það kyrrt. Hún gaut á það augunum þegar hún kom heim og fékk ónotatilfinningu um sig alla. Hún vissi að innan tíðar yrði hún að gera eitthvað í málunum, taka sér tak en þó aðallega að finna tíma til að sinna því. Dag einn tók hún eftir því að það hafði fengið vængi. Það tókst á loft og sveif frá henni þegar hún gekk hjá. Það var feimið fyrst í stað og faldi sig undir sófa en með tímanum óx því ásmegin og lagði undir sig alla staði í húsinu. Það æpti á hana þegar hún kom heim, öskraði á hana þegar hún lagist til svefns og þegar hún vaknaði beið það við rúmstokkinn tilbúið að skjóta henni skelk í bringu. Nú var komið nóg. Hún gerði hernaðaráætlun, það skyldi rekið brott úr húsinu. Hún undirbjó sig vel, safnaði kröftum, viðaði að sér vopnum og skotfærum. Árásardagurinn gekk í garð bjartur og fagur. Bardaginn stóð lengi yfir. Hún byrjaði smátt en sótti fram á skipulagðan máta, notaði vopnin eitt af öðru og áður en varði hafði það látið í minni pokann. Hún vissi þó að innan tíðar kæmi það aftur, það myndi læðast inn örlítið og saklaust, blessað rykið.

Erum við farin í hundana?

Margt býr í þokunni var eitt sinn mælt. Í dag segi ég margt býr í snjónum. Það sést þegar hann skiptir um ham og lekur burt í hlákunni. Ég ætla ekki að kvarta yfir öllu ruslinu, sígarettustubbunum og rakettuhettunum sem nú þekja grundir, slíkt má týna upp með vorinu, heldur minnast á hundaskítinn sem maður þarf að sæta lagi að komast hjá á annars vel til höfðum göngustígum bæjarins. Halda  menn virkilega að það sem hverfur í snjóninn sjáist aldrei meir? Hafi ég eitthvað verið farin að dala í þeirri skoðun minni að hundar eiga heima í sveit þá hefur sú trú nú styrkst til muna amk. hundar þeirra sem ekki geta hirt um dýrin eins og vera ber. Og hana nú!

Þorraþræll 2009

Ort fyrir þorrablót Sýklafræðideildar (höfundur KJ)
 
Nú er kalt á klaka
kreppa ríkir hér.
Yljar ekkert mér
allir kveinka sér.
Láta í veðri vaka
að vænkist hagur seint.
Alþing illa skeint
svifaseint.
Bubba höndin blá
brotin er og tá.
Samfylking á ská.
og skjön nú fer hún frá.
Sækja ei til saka
sökudólga þá.
Er seðlum sviptu oss frá
svei mér þá.
 
Álitleg innistæðan
engin eftir er.
Markaðssjóður sver
skuldir núna ber.
Mörg er mannsins mæðan
og maðkur mysu í.
Botnum ekkert í
hvað olli því.
Bankastjórablók
bónus stóran tók tók.
Í jeppa burtu ók
með feita bankabók.
Efa ótvíræðan
almenningsins róm.
þykja orðin tóm
þjóðardóm.
 
Hvað mun verða veit ei
vissa engin er.
Hvað framtíð í faðmi ber
fyrir okkur hér.
Upp við gefumst aldrei
áfram göngum veg.
Trauðla flýjum treg
í Noreg.
Herðum hugann nú
Hafa verðum trú.
að við bætum bú
biðjum við Jesú.
Guð oss gleym ei
þó gefið hafir allt.
Enginn endurgalt
svo einfalt.

Blót

Þá eru jólin afstaðin og grár hversdagsleikinn tekinn við. Framundan er þó í ljóma sjálfur þorrinn með sínum sviðakjömmum og súrum pungum. Yndislegur tími þorrinn. Hann má blóta þó ekki svo ljótt eins og margir láta sér um munn fara þessa dagana meira að segja í sjálfu áramótaskaupinu (helv. f.f.) sem sló mann eins og snöggur kinnhestur. Væri ekki ráð að hætta nú að blóta svona ljótt og einhenda sér í að blóta þorrann með stæl.

Þögnin rofin

Það segir fátt af einum en ekki er ég kona einsömul, þó ekki í þeim skilningi þess orðs. Það er því fátt um gildar afsakanir fyrir skorti á færslum hér á þessa uppþornuðu bloggsíðu. Ástæðan er einfaldlega mislukkuð tímastjórnun þar sem ekki var gert ráð fyrir tíðu hugarflugi inn á víðfeðmar lendur bloggheimsins. En hver veit nema ég geti stigið á stokk og strengt heit um bót og betrun á nýju ári.
Margt hefur á dunið þetta haustið meðan ég hef þagað þunnu hljóði. Allt gengur nú út á að varðveita eigin heilsu en áherslur manna á því hvaða heilsu ber að varðveita eru ólíkar. Við hér  höfum lagt mikla áherslu á líkamlega, andlega og félagslega heilsu með ýmsum aðgerðum sem margar hverjar hafa haft þó nokkur áhrif á fjórðu heilsuna hina fjárhagslegu. Reisa okkar hjóna til Þýskalands, Ítalíu og Austurríkis hafði verulega góð áhrif á heilsurnar þrjár og hin fjórða hefði hvort sem er orðið döpur hefðum við ekki verið búin að eyða öllum aurnum í farmiða og gjaldeyri.
Snemma í nóvember varð okkur ljóst að ekki yrði komist hjá nokkrum niðurskurði við jólahald þetta árið. Eftir mikla áætlanagerð, hagræðingu og forgangsröðun varð megin niðurstaðan sú að skera verulega niður í þrifum þetta árið einkum vegna tímaskorts og til að varðveita líkamlega og andlega heilsu með því að halda fast í núverandi umfang jólabaksturs. Voru allir aðilar á eitt sáttir um þetta og hefur öðrum niðurskurði ekki verið fagnað eins innilega á þessu landi þetta haustið Tounge.
Nú nálgast jólin líkt og óð fluga og þessi yndislega jólaleti að læðast að manni. Þegar rassinn sest í eldhússtólinn á Fossi og smákökurnar hennar mömmu blasa við innan seilingar og jólatréð sem afi smíðaði stendur í stofu er ekkert að vanbúnaði.
Megi þið lesendur góðir eiga gleðiríka jólahátíð og ánægjuríkar lesningar og bloggskrif á komandi ári.
Með bestu jólakveðjum
Stína

Jól á Fossi


Að kunna að svara fyrir sig...

.... er afar mikilvægt. Sonur okkar Andri Snær virðist vera að ná nokkrum tökum á því. Fram að þessu hefur árla dags verið höfðað til keppnisskapsins hjá kauða í þeim tilgangi að koma honum á fætur. Sá sem er síðastu framúr er snigill og oftast leggjumst við Andri á eitt að koma heimilsföðurnum í það hlutverk. Í gær var seint farið í ból og ungi maðurinn lítt hrifinn af kapphlaupum á klósettið. Þegar snigilsheitið var hermt uppá hann svaraði kauði: Já, já en þið sváfuð styttst.Grin

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband