Komin á ról

Ef ég hef einhvern  tímann komist nálægt því að upplifa kraftaverk þá var það í gær. Kl. 6:45 haltraði ég sárþjáð inn á spítala og kl 13 var ég farin að róla um gangana og kom svo heim í dag og ekki búin að taka eina verkjatöflu, makalaust. Læknirinn dró dágóðan brjóskdrjóla upp úr bakinu á mér sem öllum vandræðunum olli og hann er nú á bak og burt og framundan bara að jafna sig, labba, labba, labba og labba. Þakka allar hlýju kveðjurnar sem bárust á bloggi, SMS o.fl. Smile  

Strengir

Eftir 10 daga dvöl í sveitasælunni, gleðileg jól og farsæl áramót, er maður auðvitað endurnærður og svo sperrtur og strengdur uppá þráð af öllum áramótaheitunum að það hálfa væri nóg. Í fyrramálið verður amk skorið á einn þráð en þá fer ég undir hnífinn með bakið. Gott verður að ljúka þessu af og komast á gott ról á ný. Maður er víst full ungur enn til að leggjast í kör. Fyrsta áramótaheitið er að komast upp úr körinni. Wish me luck!

Þögn í hávaða og látum

Mikið er nú annars ágætt að hafa bloggið þegar hið mikilvæga líffæri raddböndin virðast vera búin að fá nóg af öllu masinu og segja stopp. Allt sem þau láta frá sér er hvæslandi tíst sem enginn heyrir né skilur. Annars finnst mér alltaf gott að þegja það eru ekki allir sem geta það og má því eflaust telja til mannkosta. Veðurguðirnir hafa hins vegar hátt, mikið og oft, þessa dagana. Skólinn var lokaður hjá Andra í morgun svo það var gott að geta bara kúrt sig inni, þagað og hlustað á rokið - held því áfram eitthvað fram eftir degi Smile

Karlinn minn kæri.

Ég á nú alveg einstaklega kurteisan og hógværan mann sem er nú ekki vaðandi upp með heimtufrekjuna og tilætlunarsemina eins og margur nú til dags. Skilaboðin hans til mín þegar ég er ekki að standa mig sem skyldi eru svo fínleg að unun er að. Vegna þess að aldrei slíku vant eru nokkrar annir hjá mér í vinnu, skóla o.s.frv. og sökum þess hef ég nú dregið það að byrja jólabaksturinn. Bakið hefur nú heldur ekki alveg verið að duga daginn. Sl. daga hefur ýmislegt skrítið skeð. Kökustamparnir læddu sér úr efstu hillunni í búrinu og niður á frystikistuna. Uppskriftamappan lá á borðshorninu einn daginn og svo kom Andri Snær skoppandi með mömmukökumótin til mín í gær eftir að þeir feðgar höfðu rótað eitthvað í skúffum um tíma. "Mamma, hvenær byrjum við eiginlega að baka".   Þetta var nú svo krúttlegt allt saman að mín rumpaði af lokaverkefnunum,  dreif sig í Bónus og verslaði í baksturinn, skellti í sig nokkrum verkjatöflum og viti menn komin ein sort og deigið tilbúið í aðra sem bakast á morgun. Segið þið svo að þolinmæðin (hans Tóta) vinni ekki þrautir allarTounge .

Hvað haldið þið..

... jólaundirbúiningur er hafinn hér í kotinu. Eiginmaðurinn harðneitaði okkur Andra um að byrja að skreyta um helgina en við stálumst til að finna gömul jóladagatöl og hönnun jólakortsins fékk sérstaka undanþágu enda ætíð nokkra kvölda verk að útbúa það, velja myndir oþh. Sem fyrr nýtir maður sér tölvutæknina enda fyrir löngu komin með nóg af sinaskeiðabólgu og skrifblindu eftir að árita þessi 60 kort sem sendast héðan ár hvert. Vona að einhver sé orðinn spenntur að sjá dekkjagaur þetta árið Smile .

Ljúfar stundir

Meðlimir í vínklúbbnum Votmúla áttu einstaklega góðar stundir sem og létta spretti í ferð sinni til Danaveldis. Margt var brallað og borðað og borðað og borðað og drukkið! Félagar höfðu á orði að klúbburinn væri að breytast úr vínklúbb í matarklúbb en þetta tvennt fer jú afskaplega vel saman ekki satt, matur og drykkur. Söfnuður þessi, oft kenndur við Votmúlakirkju sótti heim kirkjur og krær, víninnflytjendur og veitingahús, sveitakrær og smurbrauðsstofur, tívolí og tuskubúðir svo fátt eitt sé nefnt. Íslendingaslóðir voru skoðaðar undir dyggri leiðsögn Guðlaugs Arasonar og var það einstaklega skemmtilegt og hægt að mæla með við hvern Íslending sem álpast á danska grund. Skaftfellingurinn Broddi Hilmarsson sem margir þekkja slóst með í för ásamt spúsu sinni og arkaði með okkur um gamla bæinn. Hægt væri að segja margar sögur úr þessari dýrindis ferð en liggja þær nú í gerjun og bíða betri tíma.


Bakslag

Það sem ég hélt að væri stirðbusaháttur og einskær ræfildómur í mér, að vera að vakna upp á nóttinni með bakverk ofan í tær, reyndist nú vera annað og meira því miður. Því um hitt getur maður sjálfur sér kennt. Það kom á daginn að í einum lið í bakinu er stórt brjósklos sem nú þarf að sjá til hvort gengur til baka eður ei. Meðan ég bíð ætla ég að skreppa til Köben fram á sunnudag, tek bara lágbotnaskó og verkjapillurnar með. Sí jú later Cool .

Hann er æði...

... sá nýi. Samt smá viðbrigði að vera komin á díselbíl, svolítið annar fílíngur, önnur hljóð og önnur vinnsla. Eitt er svolítið fyndið, maður er mátulega búinn að fá sér díselbíl þegar olían er orðin dýrari en bensínið Pinch. En það hefur nú seint verið fárast yfir eyðslu í eldsneyti hér á heimilinu en hvernig endar þetta annars með eldsneytisverðið? Það er orðið ódýrara að fljúga til Köben í helgarferð en að skreppa á sæmilegum jeppa til fjalla á Íslandi. Til þess að spara svolítið kíkjum við því á Köben með safnaðarferð Votmúlakirkju. Brottför eftir 8 daga.

Votmúli


Og frúin hlær í betri bíl....

Verð úti að aka næstu daga......Cool


Survivor

Það er ég. Ástæður:

  1. Lifði af afmælisveislu með 20, 6 ára krílum á fimmtudaginn, spurning hvort það verður endurtekið. Ég reikna þó alveg með að það sé eins með þetta og fæðingar, um leið og þær eru afstaðnar þá er allt gleymt og grafið og konan til í margar enn.
  2. Lifði af 27 manna fjölskylduveislu á sunnudaginn, einnig í tilefni afmælis sonarins.
  3. Samhliða þessu lauk ég við verkefni í skólanum. Guðs mildi að þetta er allt unnið í tölvunni ella hefði handritið verið atað í eggjahvítu og rjóma. Vakti svo fram á nótt eins og kjáni til að ræða við samnemendur hinum megin á jarðkúlunni. Maður er náttúrulega bilaður.

Hvers vegna tókst þetta, jú af því ég á góða að: mamma, pabbi og maðurinn, án þeirra væri þetta ekki hægt.

Góða nótt


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband