Ættarmót undir Eyjafjöllum

Um helgina komu saman á Heimalandi undir Eyjafjöllum niðjar Þorbjargar Jónsdóttur og Guðjóns Vigfússonar frá Raufarfelli. Þau hjónin eru langafi og langamma mín í móðurömmuætt. Ljóst er í mínum huga að löngu var orðið tímabært að halda slíkt mót því að lítið þekkti maður til afkomenda dætra þeirra hjóna, sem nú eru allar látnar, nema auðvitað þeirra Kristbjargar (sem bjó á Fossi) og Bjarnýjar (amma mín). Ánægjulegt var að sjá og kynnast þessu fólki og ekki síður skemmtilegt að hitta nánari ættingja og þá sem maður betur þekkir því í dag virðist líða enn lengri tími á milli þess sem maður hitti fólk og ekki gefur maður sér mikinn tíma til heimsókna því miður. Mótið var vel lukkað, á laugardaginn var ekið á heimahaga þeirra hjóna Lambafell og Rauðsbakka sem og heim að Raufarfelli. Stærsti viðburðurinn var síðan þegar Skógasafninu voru afhentar líkræður þeirra hjóna. Þórður tók á móti hópnum af sinni einkunnu snilld og lét okkur syngja Fögur er foldin í Skógarkirkju þar sem athöfnin fór fram. Leiða þeirra hjóna var svo vitjað í Eyvindarhólakirkju. Að loknum kvöldverði var síðan setið að skrafi í félagsheimilinu og fjölskylduböndin styrkt fram eftir kvöldi. Í dag hélt svo hver í sína áttina og ákveðið hefur verið að hittast að tveimur árum liðnum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband