Sumarfrí - 1.hluti

Þeim er farið að fækka stöðunum sem við hjónin höfum ekki komið á og þetta sumarið fækkaði þeim enn meira. Fyrsti hluti sumarfrísins var nokkra daga ferðalag um norðaustur og austurland með sérstakri áherslu á annes og eyðifirði. Við byrjuðum að sópa (en það köllum við þegar landsvæði er mjög grannt skoðið og fátt skilið eftir óálitið), við Húsavík en þar og á Tjörnesið höfðum við reyndar komið áður sem í Ásbyrgi sem var sleppt að þessu sinni. Á Húsavík skoðuðum við hvalasafnið og var það sérlega skemmtilegt bæði fyrir unga sem aldna. Síðan lá leiðin út á Melrakkasléttu og ekki var nú umferðaröngþveitið að æra okkur þar og fátt sem truflaði þá einstöku upplifun að koma þar á svæði þar sem hæsti punktur er lítil aflíðandi hæð eða bara næsta þúfa. Stærsta plássið, Raufarhöfn fannst okkur lítið spennandi og héldum því á Þórshöfn þar sem slegið var upp tjaldi. Daginn eftir var Langanesið skoðað og síðan ekið til Vopnafjarðar og þaðan yfir Hellisheiði eystri með sýnu ægifagra útsýni yfir Héraðið. Næstu tvær nætur gistum við síðan í Atlavík og nýttum dagana í að skoða Mjóafjörð alla leið að Dalatanga, Vöðlavík og Viðfjörð. Við litum líka á Seyðisfjörð og þræddum svo suðurfirðina alla leið niður í Lón þar sem gist var síðustu nóttina í góðra Víðáttuvina hópi sem voru þar á ferð. Á myndunum má sjá okkur mæðgin ofan við Mjóafjörð og Andra hjá gömlum heyvinnslutækjum í Vöðlavík sem er yndislegur staður að koma á.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband