Hún og það.

Hún hafði horft á það lengi. Þegar hún sá það fyrst var það örlítið og saklaust og nærvera þess ónáðaði hana ekki hætis hót. Í önnum dagsins var það ekkert að þvælast fyrir henni, það lá bara þarna, hreyfingarlaust. En tíminn leið og það tók að stækka, á alla kanta, en ennþá lá það kyrrt. Hún gaut á það augunum þegar hún kom heim og fékk ónotatilfinningu um sig alla. Hún vissi að innan tíðar yrði hún að gera eitthvað í málunum, taka sér tak en þó aðallega að finna tíma til að sinna því. Dag einn tók hún eftir því að það hafði fengið vængi. Það tókst á loft og sveif frá henni þegar hún gekk hjá. Það var feimið fyrst í stað og faldi sig undir sófa en með tímanum óx því ásmegin og lagði undir sig alla staði í húsinu. Það æpti á hana þegar hún kom heim, öskraði á hana þegar hún lagist til svefns og þegar hún vaknaði beið það við rúmstokkinn tilbúið að skjóta henni skelk í bringu. Nú var komið nóg. Hún gerði hernaðaráætlun, það skyldi rekið brott úr húsinu. Hún undirbjó sig vel, safnaði kröftum, viðaði að sér vopnum og skotfærum. Árásardagurinn gekk í garð bjartur og fagur. Bardaginn stóð lengi yfir. Hún byrjaði smátt en sótti fram á skipulagðan máta, notaði vopnin eitt af öðru og áður en varði hafði það látið í minni pokann. Hún vissi þó að innan tíðar kæmi það aftur, það myndi læðast inn örlítið og saklaust, blessað rykið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband