Færsluflokkur: Bloggar

Dýrin vinna Júróvisíon.

Mamma, mamma ég vil kjósa dýrin! Sagði Andri Snær þegar hinir finnsku Lordi höfðu lokið sér af á júróvisíon.  Bragð er að þá barnið finnur - sannaðist sá málshátturinn það kvöldið þegar Finnarnir rúlluðu þessu upp og enginn ósáttur við það sem ég þekki. Skemmtileg tilbreyting í annars frekar einsleitri keppni, mikið af breiðum börmum og dillandi bossum.

Í vinnunni gengur afbragðsvel með innleiðingu nýja GLIMS tölvukerfisins. Ársvinna við undirbúning er nú á enda og spennandi að sjá þetta allt virka í raun og veru.

Í norðan garranum sem nú geysar fyrir utan gluggan er bara huggulegt að hamra á tölvuna nokkur orð í þetta annars ágæta hobbý, bloggið.


Vinna, vísnagerð og kvöldstund í hópi vina.

Hvað vill maður meira á einni helgi en að vinna svolítið til að halda sér við efnið og forða því að maður leggist í leti. Setja svo saman amk. eina vísu til að efla andann og gleðjast svo í góðra vina hópi á laugardagskveldi.

Það vill svo til að allt þetta tengist hinu ágæta samstarfsfólki mínu á Sýklafræðideild LSH. Þar fögnuðu þær Sigga, Helga og Gústa samtals 150 ára afmæli sínu og buðu til teitis. Þar töfruðu þær fram dýrindis krásir og syndsamlega góðar súkkulaði tertur sem runnu ljúflega niður. Glæsilegt boð stelpur!!!

Ekki áttu allir vinnufélagarnir heimangengt því sumir eru nú nánast rúmfastir eftir íþróttaiðkun sem var einhvernveginn svona:

Sólveig sveif á sínum fák

með svanasöngsins kvaki

en það var víst einhvert kák

er allsgáð flaug af baki.

 

Ekki var svo verkefnaskortur í vinnunni í dag sbr. fréttir af ástandi mála á LSH. Því var mestum hluta dagsins eytt þar en náði þó að kíkja í kaffi til ömmu Gyðu.  Amma Gyða sem er reyndar tengdamamma mín er ný orðin 83 ára og er nýhætt að reykja. Hún tók vel á móti okkur að vanda og spillti okkur með eftirlæti eins og ömmum hættir til að gera.

Á sólríku síðdegi var farið í hjólatúr þar sem foreldrarnir hlupu á eftir eldklárum hjólreiðakappanum honum Andra Snæ.Svalur


Einu sinni er allt fyrst.

Ætli þetta sé upphafið á einhverju stórkostlegu. Fyrsta bloggfærslan orðin að veruleika. Bíðið spennt eftir framhaldinu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband