Færsluflokkur: Bloggar

Smá stuna

Jæja, er nú ekki mál komið að stynja upp einhverri visku hér á bloggið. Það er vægast satt mikið að gera hjá minni og fær bloggið að kenna á því og situr fast á hakanum þessa dagana. Hér heima eru allir hressir og bíða sumir spenntir eftir afmælinu sínu þann 25. Ég var með þá hugmynd að nálgast afmælsigjöfina á hálfvirði í dag en hætti við þegar ég sá röðina út á horn og umferðaröngþveiti um allan Smárann. Makalaus landinn þegar hann tekur sig til.

Tóti er á haus ofaní húddi á þeim svarta og hristist húsið af og til þegar verið er að prófa ganginn. Þessir 400 hestar geta svo sannarlega látið í sér heyra hérna við húshornið. Svo ætlar hann að skvera Mússóinn því hann er á förum frá okkur fljótlega. Húsmóðirin er orðin glaseygð af allri tölvuvinnunni því nú eru verkefnaskil í skólanum og allt á fullu í samskiptum austur og vestur um haf. Það er því mál að fara að hætta þessu pikki og kíkja á steikina í ofninum, opna eina rauða og "hugga sig" svolítið eins og þeir segja í Danaveldi.

bestu kveðjur til allra nær og fjær.

Stína


Hann á afmæli..

.. hann Tóti, hann á afmæli í dag.

Við Andri leystum kallinn út með gjöfum, drógum hann niður í bæ og buðum honum út að borða og ís á eftir. Til að róa okkur niður skoðuðum við friðarsúluna í Viðey sem skín nú svo skært. Nú fara allir saddir og sælir í háttinn.


Líf mitt í dag

Íðilfögrum orðum

ykkur var búin að lofa 

en lífið er sem forðum

vinna, éta og sofa.


Cyber Stína

Í æsku fékk maður fréttirnar nokkra daga gamlar með Mogganum eða Tímanum en svo var auðvitað sjónvarpið en þó ekki á fimmtudögum og ekki í júlí. Alla aðra visku varð að lesa af bók. Samskipti við vini í öðrum landshlutum fóru fram með pappírsbréfaskiptum. Þegar ég byrjaði að vinna á rannsóknarstofunni skráðum við niðurstöðurnar með penna í bók.

Í dag er öldin önnur. Nýjustu fréttir tiltækar á öllum tímum og ef maður missir af sjónvarpsfréttatíma má horfa á hann á netinu. Nýjustu þekkingu í vísindum má lesa í rafrænum tímaritum líka á netinu og engar afsakanir fyrir því að vita ekki af hlutunum. Vinir og kunningjar lesa fréttir af manni á blogginu og kasta á mann kveðju þar og hringja etv. eitt og eitt símtal til hátíðarbrigða en það er í raun óþarfi það er hægt að tala saman frítt með Skypinu. Ég fór í háskóla í Bandaríkjunum en sit heima í stofu og kennarinn er í Hollandi. Í verkefnavinnu komum við saman á spjallborði námskeiðsins og svo poppa félagarnir upp í AOL þegar þarf að ræða málin. Í dag kynnti ég fyrir læknum á gjörgæsludeildinni nýja rafræna svarakerfið okkar í vinnunni en þar geta læknar skoðað niðurstöðurnar um leið og við höfum skráð þær í okkar kerfi.

Já það breytist ýmislegt á mannsævi en hvern hefði grunað þetta fyrir 37 árum?


Sumarfrí 3.hluti enn á Fossi

Enginn ferð í sveitina er fullkomin nema að komast í léttan rúnt á Rússanum og í sumarfríi er það algjört möst. Sunnudag einn var pakkað niður nesti og "brunað" af stað inn á Vesturafrétt. ÁningÁfangastaðurinn var Reiturinn. Staðurinn sá er m.a. tilkomin fyrir tilstuðlan ömmubræðra minna þeirra Sigga og Steina sem fyrir margt löngu gróðursettu, í afgirtu svæði á eyðimel nokkrum, nokkur lúpínufræ. Þóttumst við vita að lúpínan væri vel spræk ennþá enda skoðað staðinn í nokkur skipti áður. Erindið var hins vegar að kanna hvort þrílit fjóla, sem mamma hafði stungið þar niður fyrir nokkrum árum, væri enn á lífi. Á leiðinni inn í reit er margt fegurra staða og gaman er að stoppa t.d. við Fagrafoss og í Eintúnahálsi.

Þegar inn í reit var komið blasti við mikill og fallegur gróður, margar blómtegundir og grávíðir. Hófst þá leitin að fjólunni og viti menn þarna var hún. Lifði góðu lífi í skjóli við lúpínurnar og mittishátt grasið.Þrílit fjóla á fjöllum

Eftir góða sund í reitnum var dólað á Rússanum vestur í svokallað vik og gengið að steini nokkrum sem Steini kallinn fann eitt sinn í tófuleit. Höfðu þeir félagar pabbi, Steini og Siggi tekið á sig náðir í Rússanum þegar tók að heyrast sérkennilegt hljóð úr fjarska. Ekki undi Steini við það að vita ekki hvað það var og ákvað að ganga á hljóðið. Kom hann þá að steini nokkrum sem í vindinum vaggaði ofan á öðrum steini og myndaði við það eilítið bank. VeltisteinnEftir góða stund í vikinu var dólað til baka og nú farinn línuvegurinn austur á heiðarbrún ofan við Geirland. Rússinn fór létt með að dóla niður brekkuna og skilaði okkur þá sem endranær heim úr góðri ferð.


Benni byggir

Þetta er væntanlegur vinnustaður bóndans að ári. Á föstudaginn voru teknar fyrstu 150 skóflustungurnar að þessu glæsilega húsi sem mun rísa við Krókháls. Starfsmenn, makar og börn töku öll þátt í atburðinum og röðuð sér í hring og mynduðu útlínur hússins með skóflur að vopni. Stór dagur í sögu þessa fyrirtækis sem eitt sinn var lítið en er nú við það að verða stórt.

Mikið var um teiti þessa helgina og eftir moksturinn tók við boð hjá Rósu í Mosó og á laugardaginn var heimboð með vinnufélögunum sem að vanda heppnaðist með ágætum. Það er ágætt að eiga svona helgar öðru hvoru þar sem geðinu er blandað svolítið, það verður alltaf betra á eftir, ekki satt. 


Sorrý Stína

Við mína "fjölmörgu" dyggu lesendur segi ég í dag, sorrý fyrir hina löngu bið eftir nýjum fréttum en nú verður bara eitthvað undan að láta. Mín er komin í fjarnám í upplýsingatækni á heilbrigðissviði við háskólann í Minnesota USA og á kafi í lestri, spjallfundum og verkefnavinnu. Allt er þetta yfir blessað netið sem sér til þess að maður þarf ekki að yfirgefa land og þjóð til að viða að sér nokkrum fróðleik sér til gamans. Sumir myndu etv. kalla það "heimsku" að vilja ekki skella sér bara vestur um haf en ég segi: Heima er best.

Dobre den

Nú slær maður um sig á Serbó-Króatísku og bíður góðan daginn með stæl! Við hjúin komum til landsins í gær eftir 6 daga ferðalag til Dubrovnik í Króatíu. Og já, við flugum 11.9. og meira að segja í gegnum Frankfurt sem átti að sprengja upp um daginn, það þýðir víst ekkert að vera að spá í þetta þá færi maður aldrei neitt, ekki satt. Ferðin sem farin var til að sitja aðalfund samtaka evrópskra örverufræðifélaga tókst með ágætum enda landið funheitt, fagurt og frítt. Króatía 07 169Króatía 07 068Eftir fundinn sem var á föstudag og laugardag áttum við tvo heila daga í að skoða okkur um og kynnast landi og þjóð eilítið betur. Dubrovnik er ævagamall, lítill en afar skemmtilegur og fallegur bær sem enginn er svikinn af því að heimsækja. Þar má t.d. ganga eftir 2 km löngum virkisvegg sem umkringir allan gamla bæinn og reistur var fyrir mörgum öldum síðan. Þetta er fyrsti staðurinn sem ég kem á þar sem göturnar eru lagðar marmarsteinum. Sjórinn er jafn tær og íslenskur fjallalækur en því trúir enginn fyrr en séð hefur. Því miður er ég ekki í þeim hópi sem finnst gott að flatmaga á sólarströnd en þetta er einnig kjörinn staður fyrir slíka iðju. Alltaf er nú gott að koma heim og hressandi að ösla lækina á götunum í stórrigningunni í dag eftir allt þetta sólskin Cool


Sumarfrí 2.hluti. Á Fossi

Í Paradísinni okkar á Fossi var næstu 2 vikum frísins eytt. Þar þarf nú engum að leiðast. Fjórhjólin fengu fínan snúning, skroppið í veiði í heiðina, þefað af heyi og duddað í garðinum. Krakkarnir pössuðu hvort annað og lítið var fyrir þeim haft enda allt svo afslappað. Við systurnar slógum saman í trampólín og daginn sem það var sett upp voru krakkarnir nú ekkert lítið glaðir, sjá mynd.Trampólínæði Í garðinum hafði pabbi komið Allisinum og gamla Siggeir (56´Farmalinum) fyrir og þurfti nú stundum að liðka þá aðeins. Menn sem dvöldu á Fossi komu í nokkrar pílagrímsferðir að skoða gripina sem settu fallegan svip á garðinn.Siggeir settur í gang

 

 


Fyrsti skóladagurinn

Í gær sagði Andri Snær skilið við leikskólann sinn og í dag var fyrsti skóladagurinn í Kársnesskóla. Það er ekki laust við að það hafi verið smá taugatitringur í morgun og það voru spenntir félagar sem biðu eftir að hringt væri inn. 1. skóladagurinnAndri verður í 1R með Garðari vini sínum og er afar sáttur við það. Fyrsti dagurinn gekk ljómandi vel að þeirra sögn en það var lítið lært í dag, það kemur seinna segja þeir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband