Færsluflokkur: Bloggar

Sumarfrí - 1.hluti

Þeim er farið að fækka stöðunum sem við hjónin höfum ekki komið á og þetta sumarið fækkaði þeim enn meira. Fyrsti hluti sumarfrísins var nokkra daga ferðalag um norðaustur og austurland með sérstakri áherslu á annes og eyðifirði. Við byrjuðum að sópa (en það köllum við þegar landsvæði er mjög grannt skoðið og fátt skilið eftir óálitið), við Húsavík en þar og á Tjörnesið höfðum við reyndar komið áður sem í Ásbyrgi sem var sleppt að þessu sinni. Á Húsavík skoðuðum við hvalasafnið og var það sérlega skemmtilegt bæði fyrir unga sem aldna. Síðan lá leiðin út á Melrakkasléttu og ekki var nú umferðaröngþveitið að æra okkur þar og fátt sem truflaði þá einstöku upplifun að koma þar á svæði þar sem hæsti punktur er lítil aflíðandi hæð eða bara næsta þúfa. Stærsta plássið, Raufarhöfn fannst okkur lítið spennandi og héldum því á Þórshöfn þar sem slegið var upp tjaldi. Daginn eftir var Langanesið skoðað og síðan ekið til Vopnafjarðar og þaðan yfir Hellisheiði eystri með sýnu ægifagra útsýni yfir Héraðið. Næstu tvær nætur gistum við síðan í Atlavík og nýttum dagana í að skoða Mjóafjörð alla leið að Dalatanga, Vöðlavík og Viðfjörð. Við litum líka á Seyðisfjörð og þræddum svo suðurfirðina alla leið niður í Lón þar sem gist var síðustu nóttina í góðra Víðáttuvina hópi sem voru þar á ferð. Á myndunum má sjá okkur mæðgin ofan við Mjóafjörð og Andra hjá gömlum heyvinnslutækjum í Vöðlavík sem er yndislegur staður að koma á.

Heima er best

Sumar 2007 220Alltaf er gott að koma heim og þá sérstaklega eftir jafn langa fjarveru og núna. Margt og mikið er búið að bralla í fríinu og ekki er unnt að tæpa á því öllu í einum pistli, það myndi enginn nenna að lesa GetLost . Það gæti því farið svo að á næstu dögum eða vikum verði að læðast hér inn brot af því sem hæst bar. Í stórum dráttum fórum við eins langt að heiman og komist verður á þessu skeri og er meðfylgjandi mynd af Langanesi því til sönnunar. Leiðin heim að Fossi var síðan farin með öllum mögulegum út úr dúrum og eyðifirðir og annes austfjarðanna þrædd. Eftir góða viðdvöl á Fossi var svo farið í 5 daga fjallareisu með mömmu og pabba. Nánar um þetta allt síðar, nú er mál að fara að huga að því að leggja sig því vinnudagur er framundan.

Sól og sæla.

Mikil endemis rjómablíða er þetta annars hér í borginni. Maður hefur bara ekki upplifað annað eins síðan í sveitinni forðum tíð! Manni er bara að takast að fela leifar hlaupabólanna í sólbrúnku. Annars er nú hugur í fólki, ferðahugur. Hér voru í kvöld samankomnir Víðáttuvinir margir og lögðu á ráðin hvert skyldi halda í komandi sumarfríi sem brestur nú á innan skamms. Að vanda var niðurstaðan að halda af stað einhvern dag í einhverja átt helst þar sem veðrið er sem skást. Gott að hafa svona vel útfært plan alltaf Grin.


Ætti ég að fá mér þyrlu?

Nú berast fréttir af því að menn séu farnir að fara í bústaðinn í sveitinni í þyrlu. Þetta er auðvitað mjög þægilegur ferðamáti, ekkert að bíða í röð niður Kambana, vera 2 klst á Selfoss, bara hoppa upp í kopterinn og svífa yfir biðraðirnar. Þá er það spurningin með kostnaðinn, maður sparar auðvitað tíma, getur unnið lengur sem þýðir meiri pening. Það er ekkert dekkjaslit á þyrlunni en eldsneytiskostnaður er líklega ekkert lægri en á kagganum. Þá er bara að reikna dæmið. Ef við gerum ráð fyrir þessum auknu tekjum við vinnu á föstudagskvöldum sem annars færi í ferðatíma verð ég líklega um 384 ár að borga þyrluna en ef ég set allan minn pening í hana verð ég ca 30 ár að öngla saman fyrir þessu. Hvað skal gera, er það biðröðin eða betri vinna?

Heitur eldur

Ég er sko "hot" í dag því fólk fer í sveig framhjá mér eins og heitum eldi. Mín er komin til vinnu með bólurnar og skít hverjum sem á lítur skelk í bringu. So what, það þýðir nú ekki að vera með neina viðkvæmni út af útlitinu, hef aldrei pæja verið og hví að taka uppá því núna, fegurðin kemur að innan og hana nú. Ekki orð meira að sinni, eitthvert heitasta kvöld sumarsins er framundan, farin út, bless.

Allir gestir fara heim um síðir

Vágesturinn Varicella

vill nú heim til sín

Varast getur varla kella

veirulyfin fín.

Varicella-Zoster-Virus


Tekið á honum stóra sínum

Ég er afar lítið fyrir að kvarta og kveina það gerir hlutina sjaldan neitt betri en stundum má maður til. Almættið hefur áreiðanlega sínar ástæður fyrir því að hafa hlíft mér við þessari ömurlegu uppfinningu sinni, hlaupabólunni, ég á vonandi eftir að koma auga á þær. Þeir segja að allir erfiðleikar styrki mann, þetta er a.m.k. góð æfing í að halda geðprýðinni það er ekki svo auðvelt þegar mann KKKLLLÆÆÆJJJAAARRR svona hrikalega. Er á leið í matarsódabað það vonandi hjálpar.

kveðjur Bóla bumban.


Lyginni líkast

Ég er búin að vera hálf lumpin sl. 2 daga, með hitavellu og verki um allan kroppinn og hélt ég að komin væri í mig síðbúinn flensuskítur. Þegar ég leit í spegilinn í morgun leyndi sér ekki hvað að mér er. Brjóstkassinn, bumban og bakið útbíað í bólum. Hlaupabólan sem flestir fá innan 10 ára aldurs er lögst á 36 ára gömlu konuna sem sprakk úr hlátri fyrir framan spegillinn. Það er víst ekki hægt að kvarta yfir því að maður sé orðinn gamall þegar maður er enn að fá barnasjúkdómana LoL .

Sumarið er komið

þ.e.a.s. ferðalagaþáttur sumarsins. S.l. 11 ár hefurÍ Þórsmörk 2007 hann oftast hafist á árlegri landgræðsluferð 4x4 í Þórsmörk. Þetta árið var engin undantekning. Þórsmörk er annar uppáhaldsstaður minn á Íslandi, þið megið geta hver hinn er! Í Mörkinni er ægifagurt og þar myndast stemming sem hvergi annarsstaðar birtist bæði milli vina og í sálartetrinu sjálfu. Fólk fagnar þar af ýmsum tilefnum, sumir hafa arkað Fimmvörðuhálsinn eða aðrar fallegar gönguleiðir, aðrir hafa notað daginn í að bera á og planta trjám og gleðjast yfir góðum árangri vinnu s.l. 11 ára, en aðrir fagna lífinu sjálfu. Umferðarteppur inn og út úr borginni gleymast fljótt því minningin um vel heppnaða Merkurferð situr fastar í hugskotinu.


Bólur og bakverkir á baráttudegi kvenna

Mörg eru mannsins meinin og fer engin varhluta af því. Andri hefur nú fengið hlaupbóluna sem hefur undanfarna daga haldið í við hann og hlaupið út um allan líkamann. Hann er þó á harða spretti og u.þ.b. að losa sig við þess óværu sem mun síðan aldrei kveða dyra hjá honum aftur sem betur fer. Illu er best af lokið þar. Það sama við um arfann í beðunum, best að losa sig við hann strax. Bakið er því bogið eftir kvöldsins arfakrak og sóleyjaskak en það er gott að fara lúinn að sofa, maður sefur betur. Engir sérstakir sigrar unnust hjá mér á baráttudegi kvenna enda er það löngu sannað að konur eru körlum i mörgu fremri. Sem dæmi hefur lítil hreyfing verið á verkþáttum karlanna við pallasmíðina á meðan 1. verkþáttur sem var í höndum kvenna lauk 2 dögum á undan áætlun. ? hvað skyldi ráða?Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband