Færsluflokkur: Bloggar

Ættarmót undir Eyjafjöllum

Um helgina komu saman á Heimalandi undir Eyjafjöllum niðjar Þorbjargar Jónsdóttur og Guðjóns Vigfússonar frá Raufarfelli. Þau hjónin eru langafi og langamma mín í móðurömmuætt. Ljóst er í mínum huga að löngu var orðið tímabært að halda slíkt mót því að lítið þekkti maður til afkomenda dætra þeirra hjóna, sem nú eru allar látnar, nema auðvitað þeirra Kristbjargar (sem bjó á Fossi) og Bjarnýjar (amma mín). Ánægjulegt var að sjá og kynnast þessu fólki og ekki síður skemmtilegt að hitta nánari ættingja og þá sem maður betur þekkir því í dag virðist líða enn lengri tími á milli þess sem maður hitti fólk og ekki gefur maður sér mikinn tíma til heimsókna því miður. Mótið var vel lukkað, á laugardaginn var ekið á heimahaga þeirra hjóna Lambafell og Rauðsbakka sem og heim að Raufarfelli. Stærsti viðburðurinn var síðan þegar Skógasafninu voru afhentar líkræður þeirra hjóna. Þórður tók á móti hópnum af sinni einkunnu snilld og lét okkur syngja Fögur er foldin í Skógarkirkju þar sem athöfnin fór fram. Leiða þeirra hjóna var svo vitjað í Eyvindarhólakirkju. Að loknum kvöldverði var síðan setið að skrafi í félagsheimilinu og fjölskylduböndin styrkt fram eftir kvöldi. Í dag hélt svo hver í sína áttina og ákveðið hefur verið að hittast að tveimur árum liðnum.

Synd

er það að þurfa að fara inn á þessu indæla kvöldi. Veðrið er eins og það var, í æskunni, öll kvöld á Fossi. Þá kom maður líka sveittur inn en ekki eftir rót í garðinum heldur eftir æsilegan fótboltaleik, ref á veiðum eða þrjátíu hringi í kringum Gamla bæinn í Kron. Það voru ljúfir tímar. Nú eru líka ljúfir tímar bara öðruvísi ljúfir.

Snúist og snúist

með þökurnar frá í gær. Búið að fara með fulla kerru af torfi í burtu og tvær eftir sem bíða eftir að tippurinn opni aftur. Kallarnir eru byrjaðir að spá og spekúlera, grafa tilraunaholur til að gá hvað sé langt niður á fast og nú er ekki hægt að þverfóta fyrir böndum þvers og kruss um garðinn. Ég held að steypuæðið sé alveg um það bil að renna á þá eins og stundum gerist með menn þegar svona verk eru fyrir höndum. Andri og Svavar eru alveg í essinu sínu í moldinni og alveg ljóst að það verður ekki lítill þvottur þessa vikuna.

Og meira snúist í nægu.

Af því það er nú alltaf svo rólegt og lítið hjá okkur að gera var ákveðið að skella sér í að byggja pall við húsið, smá svona skika, c.a. 40 fm í fyrsta áfanga Tounge . Þegar vinnudag laug var því rokið út í garð og byrjað að stinga upp torfið og rista ofan af. Lauk því verki nú fyrir skömmu. Þá tekur nú við þáttur eiginmannanna í húsinu og spurningin er hvort framganga þeirra verði eins vaskleg og eiginkvennanna við torfristurnar. Verkið er nú þegar komið þremur kvöldum fram úr áætlun því þeir höfðu áætlað a.m.k. 3 kvöld í jarðvinnuna Smile . Drengirnir voru liðtækir við vinnuna og roguðust með torfið á milli sín. Það eru því lúnir menn og konur sem ganga til hvílu á þessu indæla júníkvöldi.

Í nógu að snúast

Dagurinn var viðburðaríkur og nokkuð óhefðbundinn. Byrjaði á því að sofa pínulítið yfir mig sem kemur sem betur fer afar sjaldan fyrir því það veldur streitu að vera of seinn. Í vinnunni höfum við verið að flytja hluta starfseminnar í nýtt húsnæði og er það nú að mestu komið í gagnið. Skýrsla stefnumótunarinnar sem við höfum unnið að í vetur kom einnig úr prentun í dag. Uppá þetta tvennt var svo haldið með teiti í enda vinnudagsins og skálað fyrir góðu verki. Cyberlab beiðna- og svarkerfið sem við vinnum nú að að innleiða fékk sent sitt fyrsta svar í dag og nú tekur við ærin vinna hjá mér við uppsetningu þess. Það er því lúin kona sem leggur höfuð á kodda eftir fáar mínútur og vonandi man hún nú betur eftir því að stilla klukkuna en í gærkveldi.


Hnotskurn helgarinnar

Sonur okkar Andri Snær hefur nú lokið fyrsta skólastigi hins íslenska menntakerfis og útskrifaðist með pompi og prakt á föstudaginn. Stór maður varð við þetta enn stærri í sér og skundaði heim stoltur með skírteini og rós í hönd.   Á laugardaginn var svo hátíð hér í bæ, bryggjuhátíð við Kópavogshöfn var haldin í annað sinn og að sjálfsögðu var skundað og litið á nágrannana sem buðu upp á ýmsar listir og krásir fyrir líkama og sál. Heimavið höfum við ekki setið auðum höndum, Tóti að græja fellihýsið fyrir sumarfrí og að vanda eru innleiddar nýjungar eins og rafdrifið vatnskerfi og lesljós svo fátt eitt sé nefnt. Frúin vatt sér í tiltekt og tók fataskápana í gegn og nú er bara alveg hægt að koma einni flík enn inn í þá. Síðast en ekki síst er afmælisdagur í dag. Afmælisbarnið ber 69 árin einkar vel og ef ég þekki hann rétt þá er hann nú kominn inn í ból með nýju biblíuna sína yfir gamla traktora. Elsku pabbi innilega til hamingju með daginn Kissing.


Húsið á sléttunni

Kvöld eitt er öllum hóað upp í Rússann. Á mátulegum meðalhraða mallar hann austur fyrir holt, yfir álana og fljótlega er beygt niður hraun. Þar tekur við annar heimur, annar tími, önnur gildi. Fallegir lækir sem liðast undan hrauninu eru brúaðir með trébrúm sem staðið hafa lengur en ég hef lifað. Gamlir troðningar liggja út á gresjuna í átt að stöðum sem eitt sinn iðuðu af lífi í það minnsta einu sinni á ári. Gamall bær með hvítum þiljum og grænum gluggaumgjörðum hefur lagt aftur augun sem áður horfðu til hafs. Frá hrauninu liggur leiðin út á sléttuna að húsinu, því eina sem þar finnst. Áður stóð þar lágvaxinn maður tvístígandi á tröppunum og virtist sem hann iðaði í skinninu eftir að heilsa manni og bjóða manni inn. Að baki honum í eldhúsinu var sem þeytispjald væri á ferð, það var systir hans að setja upp kaffið. Þá var gengið í stofu og sest í sófa við eldhúsborðið og aldrei varð maður svo stór að maður næði nema rétt hökunni upp á borðið þar sem bornar voru fram bestu kökur sem maður komst í. Samtöl í þessari stofu voru ávalt hressileg því heimilisfólkið fylgdist vel með og kunni margar sögur frá liðinni tíð. Þarna var maður manns gaman, gleðin kom ekki frá dauðum hlutum. Ég máta sófann og enn nær aðeins hakan rétt við borðbrúnina. Sömu myndirnar eru á veggnum og allt er eins og það var, allt sem þurfti en engu ofaukið, allt var nýtt sem hægt var að nýta. Við skellum í lás og skiljum eftir þennan gamla tíma, þessi gömlu gildi sem fáir hafa í gnægtum og ofneyslu nútímans. Rússinn ratar leiðina heim.

Spurningar

Hvernig finnur þú innri ró? Hvar finnur þú frið? Hvernig safnar þú kröftum? Hvernig minnir þú sjálfan þig á hver þú ert eða hver þú vilt vera?

Mitt svar: Dvöl í sveitinni.

kveðja, Ein endurnærð.


So long

Farin og flúin í sveitina

að finna gömlu geitina

sem þar er á beit

sem sólin er heit

vona að hún komi í leitina.

 


Áhugaleysi

Mikið vildi ég að ég hefði áhuga á pólitík. Þá gæti ég lofað í löngum bálkum ágæti nýju ríkisstjórnarinnar nú eða sett saman krassandi samsæriskenningar um hvernig hún var bökuð af Baugi fyrir kosningar og nú borin fram með Bónuskaffi á bökkum Þingvallavatns. En ég verð víst að bíta í þá hundasúru að áhuginn og vitið á málinu er takmarkaður. Pólitíkusar eru án efa hið besta fólk upp til hópa og hvað getur maður gert annað en óskað þeim góðs gengis við stjórnun landsins og þakkað fyrir að þau nenna þessu, það veit Guð að ekki myndi ég leggja það á mig. Bestu kveðjur hin íslenska, blágræna, vinstri framsóknarhönd.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband