Færsluflokkur: Bloggar

Suðurnes

Á blíðviðrisdeginum í gær var ákveðið að smella sér í bíltúr um Suðurnesin, kíkja á Wilson Muuga og önnur fræg kennileiti þarna á nesinu. Nokkuð var umliðið frá því við höfðum farið þarna um í öðrum tilgangi en að hoppa uppí flugvél til að komast af skerinu. Ýmislegt hefur nú breyst en annað ekki. Fólk er í auknu mæli að taka sér bólfestu í sumum plássunum en í öðrum er lítil hreyfing, húsin standa mörg hver auð og illa til höfð. Því verður ekki neitað að víða er nesið hálfgerð eyðimörk á að lýta, hvergi trésproti, aðeins úfið hraun svo langt sem litið er. Fögur er þó fjallasýnin þegar bjart er og að horfa út á hafið við Reykjanesvita er ólýsanlega fallegt á svona degi. Vindheld úlpa, húfa og vettlingar eru nauðsynlegir fylgihlutir eigi maður að njóta þessa í augnablikstund enn sem komið er en bráðum fer að vora.


Veisla

Á þessum fallega skírdegi fermdist hann Kristinn Jóhann frændi minn, sonur hennar Jónu móðursystur. Blásið var til veislu á Skaganum og ekki kemur maður nú svangur þaðan. Dýrindis krásir kitluðu bragðlaukana svo um munaði. Eftir annríki undanfarinna daga er yndislegt að eiga svona dag, dúlla sér í sparifötunum, spjalla við ættingjana sem maður hittir alltof sjaldan, borða góðan mat og nota svo kvöldið í að jafna sig.

Gráu sellurnar í fínu formi

Nú eftir áramótin hef ég verið með þessar gömlu gráu sellur í höfðinu í endurhæfingu og smá leikfimi. Settist á skólabekk eftir 5 ára hlé frá þeirri iðju. Ekki vissi ég nú hvernig þær tækju við sér og átti ekkert sérstakar vonir á því að þær væru yfir höfuð til neinna stórræða. Það kom því skemmtilega á óvart þegar ég fékk fyrra verkefni námskeiðsins til baka að sellurnar höfðu skilað sínu 9.2 í höfn og nú verður ekki umflúið að gefa þeim annað tækifæri og halda áfram. Vandinn verður bara að finna tíma til að leyfa þeim að spreita sig enn frekar.


Afmæli

Í gærkveldi fagnaði Guðný "gella" vinkona mín 50 ára afmælinu. Eins og hennar var von og vísa voru prýðis veitingar, himneskir heitir réttir og tertur af ýmsu tagi. Kílóin tvö sem voru um það bil að yfirgefa mig munu nú áreiðanlega hugsa sinn gang og sjá til fram yfir páska Tounge . Í veislunni voru tvö menningaratriði: spilað var á fiðlu og píanó og tókum við sérstaklega eftir einstakri hljómfegurð fiðlunnar. Þóttust svo vinkonurnar vita fyrir víst að þarna væri á ferðinni Stradivariusarfiðla og reyndist það rétt. Það var ekki hægt að toppa þetta frábæra atriði en við bara ágætis undirtektir flutti ég nokkrar stökur um Guðnýju og hennar ágæti um leið og við færðum henni afmælisgjöfina. Afmælisbarnið var himinlifandi með kvöldið og við sömuleiðis.

Afþreying

Stundum verður maður að slaka á, slappa af og leyfa sér að njóta lífsins listisemda. Sunnudagskvöld eru einkar vel til þess fallin og flestir löglega afsakaðir í letilíf þau kvöld. Þótti okkur hjónakornunum kominn tími á eitt slíkt kvöld sl. sunnudag og splæstum því í spólu. Svo aftarlega erum við nú á merinni að við áttum eftir að sjá hinn nýbakaða James Bond. Casino Royal rúllaði sleitulaust í rúma 2 tíma og jammi jamm hvílík skemmtun. Hvað vill maður meira, fagrar konur, ljótir krimmar og síðast en ekki síst karlmannlegur og mátulega dulúðlegur karakterinn Bond sem engan svíkur.


Tímamót, framför, sigur

Í dag var ég viðstödd tímamótaaðburð sem lífeindafræðingar hafa lengi beðið eftir og er ástæða til að fagna. Ráðherra heilbrigðismála undirritaði í dag reglugerð um veitingu sérfræðileyfis til handa lífeindafræðingum. Lífeindafræðingar geta nú orðið sérfræðingar á ákveðnu sérsviði lífeindafræðinnar hafi þeir til Þess tilskylda menntun og reynslu. Nokkrir mánuðir eru síðan undirrituð lagði inn slíka umsókn hjá ráðuneytinu og nú loksins verður hægt að taka hana til meðhöndlunar. Hver veit nema að á vordögum geti maður farið að spóka sig um sem specialisti í klamydiurannsóknum ekki "dónalegt" það eða hvað?

Við undirritun reglugerðar um sérfræðileyfi lífeindafræðinga

Tveir Skaftfellingar eru í hópi væntanlegra sérfræðinga í lífeindafræði (Í aftari röð KJ og Helga Erlendsdóttir)


Góður garði

Í fjárhúsunum heima er talað um eystri og vestri garðann eins og svo margt annað í sveitinni sem kennt er við áttirnar. Svo eru stuttir garðar og langir garðar sem að komast þá mismargar rollur eða aðrar skepnur sem haldnar eru. Hér á heimilinu var garðinn þannig úr garði gerður að takmarkaður fjöldi gat sest þar að snæðingi og garðinn orðinn gjörsamlega úr stíl við aðra innviði heimilisins. Um helgina var ráðin bót á þessu og settur upp nýr og betri garði ásamt geymslu fyrir búnað er tengist þeim verknaði að gefa á garðann. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði að taka á móti og metta hinar mörgu flökkukindur sem stundum slæðast inn jafnvel þó að þær komi í stórum hjörðum eins og fyrirséð er um komandi páska.

En hvað tíminn líður!

Það er eins og gerst hafi í gær að sonur okkar kom í heiminn. Í vikunni var hann að innritast í grunnskóla. Bráðum sex ár síðan þetta litla (var reyndar aldrei lítill 19,5 merkur) kríli kom í heiminn og tók af okkur völdin. Nú stefnir hann á menntaveginn til að ná enn betri tökum á lífinu. Allt er þetta gríðarlega spennandi fyrir ungan dreng sem æfir nú stíft að sitja kyrr lengur enn í 2 mínútur því það gerir maður víst í skólanum að hans sögn. Í haust verða því 2/3 hlutar fjölskyldunnar sitjandi á skólabekk og spurning hvort okkar mun svitna meira við heimalærdóminn.

Rok og rigning

Rokið gott og rigningin er

rosalega fín

Snjórinn brátt í burtu fer

og blotnar táin mín.


Skattaskilin

Ég tek undir með henni Höllu frænku minni (langafar okkar voru víst bræður) að skattaskýrslan er líklega jafnleiðinlegasta verk ársins. Ekki er laust við að nokkur drungi hafi verið yfir fólki sl. daga vegna þessa, fólk þýtur heim strax eftir vinnu, má ekki vera að því að vinna eftirvinnu og er almennt frekar þungt í skapi. Allt stendur þetta nú til bóta því á morgun verða allflestir búnir að skila eins og ég núna Halo . Ólýsanleg gleði- og léttleika tilfinning fylgir því að smella á Senda framtal og málið er dautt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband