Færsluflokkur: Bloggar

Í minningu Óla Símons

Enginn veit sína ævi

óðara öll hún er.

Guð geymi góðan drenginn

sem genginn er frá oss hér.

 

 


Ásjáleg

Ég hef verið svo lánsöm um tíðina að hafa haft ágæta húð sem ekki hefur þurft að hafa mikið fyrir. Þ.e.a.s. ekki þurr og ekki feit og nóg að þvo með vatni og sápu annað veifið svona fyrir siða sakir. Það hljóp nú í mig sú dilla um daginn að kaupa mér eitthvað gott krem til að setja á sig í kuldanum sem verið hefur og hlífa þannig húðinni við óæskilegu áreiti svo ekki léti hún nú á sjá. Við val á herlegheitunum var óskað eftir upplýsingum um aldur undirritaðrar. Var ég nú ekkert feimin við að gefa hann upp og sagði alveg keik 37 ára. Afar kurteislega og með meðaumkunarsvip svaraði hin vel spartlaða sölukona að bragði: "Já þá þarft þú krem fyrir húð sem er farin að láta á sjá". Þannig rann upp fyrir mér sú óhjákvæmilega staðreynd að ákveðnum aldri fylgir ákveðinn stimpill og þessi verður líklega ekki aftur tekinn. Maður er orðinn ásjálegur sem er að sjálfsögðu merki um að ákveðnum líkamlegum og etv. andlegum þroska sé náð og því ber að fagna ekki satt Wink .

Fannir, flensa og farinn fiðringur

Það kom að því, ein stund á lausu til að gleðja ykkur mínir spenntu lesendur. Enn situr snjórinn og spáin er sú hin sama frost og fannfergi næstu daga. Þið getið þá getið ykkur til um hvar minn ektamaki er þessa stundina. Jú mikið rétt, jeppinn er enn í skúrnum og þrátt fyrir undirskriftalista og áheitasafnanir þá tekur kallinn þessu með stóískri ró og segir að bíllinn fari alls ekkert út fyrir páska. Svo afpantið skíðaferðirnar, kaupið ykkur jeppa ef þið eigið hann ekki nú þegar, því það verður vetur fram í maí takk fyrir :-)

Andri kallinn er með flensuna. Við hjónin þvælumst því að vanda í og úr vinnu, ég skýst á einn fund og kem svo aftur og koll af kolli. Það lítur því út fyrir að þessa vikuna verði maður mikið heima við því flensuna hristir maður ekki svo fljótt af sér.

 Ég er byrjuð í nýjum skóla, bakskóla, og þar eru sko allir settir á byrjunarreit, læra að setjast, læra að lyfta, læra að bera og læra að lifa með biluðu baki. Annars hefur hið brostna bak tekið stórstígum framförum og dofinn og fiðringurinn í fætinum að mestu horfinn. Ég virðist ætla að vera ein af þeim lánsömu sem fá bót meina sinna, sjö, níu, þrettán.

Jæja þá er kallinn kominn inn og ég ekki sofnuð, best að reyna að ná sér í smá knús Kissing


Jæja

.... er nú ekki mál að láta aðeins í sér heyra hér. Það er ekkert gaman að lesa eitthvert afsökunarvæl á blogginu um hvað allir hafa lítinn tíma til að skrifa svo ég segi bara, forgangsröðun mín á mikilvægi hluta í lífinu skín í gegn hér á blogginu, það er, var og verður víst aftast á aðgerðalistanum.

Það er gaman þegar það er svona mikið að gera, þá kemur maður hlutunum í verk því skipulagið verður að vera gott. Skólinn er rosalega skemmtilegur og vinnuálagið er alveg í botni núna vegna verkefnaskila. Í vinnunni eru mörg verkefni í fullum gangi og svo mikið um fundahöld að maður nær ekki að vinna allt það sem ákveðið er á öllum fundunum. Svo er það heimilið, heilsuræktin og litla fjölskyldan sem einnig þarf sína athygli. En ég segi bara eins og Jón í Dalalífi "I love it"


Í gírinn

Æ nú veit ég bara ekkert hvað ég á að skrifa. Ég varð bara að líta aðeins upp úr kennslubókinni og fá heilann til að hugsa um eitthvað annað en þekkingarstjórnun í smá stund. Hann á fullt í fangi með að stjórna allri þessari nýju þekkingu sem treðst inn og reynir að taka sér bólfestu í annars yfirfullu heilabúinu. Ekki það að ég sé svo gáfuð eða þannig það er bara svo margt sem þarf að muna!

Annars gengur allt sinn vanagang hér á bæ. Heilsan orðin betri en hún hefur verið í heilt ár og einhver hugur í minni sem sárt hefur verið saknað. Það er eins og maður hafi fengið fimmta gírinn svona eins og Blazerinn er að fá úti í bílskúr. Andri æðir líka áfram í náminu, bara orðin ágætlega læs þrátt fyrir að finnast alveg ótrúlega leiðinlegt að læra heima. Það er sko tekið með sálfræðinni hér. Fyrst er honum sýnt hvað hann þarf að lesa svo sýni ég honum hvað ég þarf að lesa, þá sér hann hvað hann á gott og getur ekki gert mömmu sinni það, greyjinu, að vera með eitthvert múður.

Jæja nú kemur kallinn heim, best að gefa honum einhvern bita. Tsjá.


Að byrja í ræktinni

Bogið bak og bumban stór,

barmur kyssir kviðinn.

Dugar ekkert slen og slór,

sá sælutími er liðinn.


7 ára sæla

Eftir 7 ár í hnappheldunni erum við bara still going strong. Þann 20.01.2001 var skeiðað hér út í kirkju og settir upp baugar sem blessaðir voru með stæl. Einhver laug því að mér að sjöunda árið væri skæðast hjónaböndunum, svo líklega erum við sloppin fyrir horn. Annars er nú enginn tími til að klúðra þessu eitthvað núna, kallinn alltaf í skúrnum og engum til ama þar og mín grúfir sig yfir tölvuna og námsbækurnar og yrðir varla á nokkurn mann. Ætli það sé ekki bara mátulega mikil fjarvera sem viðheldur neistanum?

Af hverju kom veturinn allt í einu?

Um leið og Tóti setti jeppann inn í skúr og reif hann í spað þá byrjaði að snjóa og hefur ekki stoppað síðan. Takið því fram skóflurnar og snjóþrúgurnar því kagginn er ekkert á leiðinni út straxTounge .

Naut í flagi

Tók hann frænda minn á orðinu og tók þann pól í hæðina að ég væri sterk eins og naut og trúa á að ég myndi hrista af mér þessi veikindi öll. Það er löngu vitað að trúin flytur fjöll og að hægt er að komast langt á jákvæðu hugarfari, hví ekki að reyna það. Reyndi því að hugsa sem minnst um spennuna í fætinum og eftir ágætan dag með góðu blandi af afslöppun, kennslu, vinnu og lærdómi (því skólinn er byrjaður á ný!) er líðanin hin besta, löppin til friðs og hægt að teygja úr skankanum án verkja. Ja ef þetta er ekki trúin þá er þetta bara gamla skaftfellska seiglan.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur...

... heilsuna. Þetta veit ég nú eftir að hafa lagst aftur inn á sjúkrahúsið nánast í yfirliði og ofsahræðslu við að ég væri að fá hjartaslag eða eitthvað þaðan að verra. Ekkert fannst þó að kerlu og eftir 2ja daga slappleika er hún aftur orðin stálslegin. Þetta veit ég líka eftir að hafa vaknað einn morguninn grátandi yfir því að verkurinn í fætinum var kominn aftur en við nánari skoðun þá var fóturinn allur aumur og mín líklega tekið of hressilega á því í göngunum og teyjunum. Hún er því að koma aftur, sú dýrmætasta sem hver maður á ..... heilsan, veri hún velkomin.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband